5. Hamarinn – huldukona
Hafnarfjörður er sannkallaður álfabær. Fram kom í úttekt sjáandans Erlu Stefánsdóttur, sem hún gerði fyrir Hafnarfjarðarbæ á tíunda áratug síðustu aldar, að í Hamrinum (Hamarkotshamri) sé merkilegasta og stærsta álfabyggðin í bænum. Ein elsta frásögnin af staðnum er um Gunnar Bjarnason, bónda í Hamarskoti, sem heyrði söng frá Hamrinum. Sagan segir að eitt sinn er Gunnar var á gangi norðan- eða austan megin í Hamrinum á vetrarkvöldi um jólaleytið hafi hann heyrt söng í honum. Gekk hann þá á hljóðið og kom að opnum dyrum á Hamrinum, sem hann gekk inn um. „Kemur hann inn í mannahýbýli og stendur söngurinn þá sem hæst. Þá var það venja á landi hér, ef að gest bar að garði, meðan á húslestri stóð, þá gekk hann hljóðlega inn, yrti ekki á neinn og heilsaði ekki fyrr en að lestrinum loknum. Þessari venju fylgdi Gunnar. Sat hann hljóður meðan á söngnum stóð og hlustaði með gaumgæfni á lesturinn, sem á eftir fór. Er [...]