Lengst af voru í raun engir afmarkaðir vegir í Hafnarfirði, einungis götur og slóðar. Hús voru byggð þar sem hagkvæmt þótti í hrauninu og milli hraunklettanna mynduðust götur eða troðningar áður en eiginleg gatnagerð hófst. Víða má enn finna leyfar af fyrstu gatnagerðinni, þar sem götur voru einfaldlega hlaðnar upp af hraungrjóti og fylltar með grús og hraunbrotum.

Best er að finna dæmi um slíkar götur við Hjallabrautina, gegnt skátaheimilinu Hraunbyrgi, og að Klettagötu. Þar má sjá hversu hagalega menn hafa hlaðið mjóar götur til að aka fiski á vögnum á stakkstæðin.

Vel hlaðin og varðveitt gata.

Fyrsta eiginlega gatnagerðin var þegar vegur var lagður frá Sjónarhóli, yfir Flatahraun og inn í Engidal.

„Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa. Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinum. Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal,” skrifaði Björn Guðmundsson sagnfræðingur 1962.

Gömlu göturnar innan um nýrri byggingar og götur.

 

Glæsileg hleðslan.

Gott að leggja

Leggja má við skátaheimilið Hraunbyrgi og ganga yfir Hjallabrautina og eftir gömlu götunum alveg niður að sjó.

Víðistaðatún og skátaheimlið Hraunbyrgi.

Markmið

Markmiðið er að kynnast Hafnarfirði fyrri ára og láta sig dreyma um fólkið á ferðinni með fiskinn á vögnum efir hlöðnum götunum.

Allt umleikis eru grjóthlaðnir garðar og gerði er nýtt voru til heimilisbrúks fyrrum.

Tilvaðið er að ganga til baka um Víðistaðatúnið þar sem bærinn Víðistaðir stóð og sláturhús sem margir muna eftir og stóð neðan við þar sem Víðistaðakirkja stendur núna.

Víðistaðatún er stórt opið svæði við Víðistaðakirkju og skátaheimili Hraunbúa. Þar er starfrækt tjaldsvæði frá miðjum maí fram í enda ágúst. Svæðið státar af fjölmörgum listaverkum sem tilvalið er að skoða og börn hafa gaman af að leika sér í. Einnig er þar aparóla, ærslabelgur og kastali sem staðsettur er í nálægð við grillhús. Hann hentar fyrir bæði leik- og grunnskólaaldur. Einnig er þar skógarlundur sem börn hafa gaman af að leika sér í sem og eini tennisvöllur Hafnfirðinga.