9 – Lækjarbotnar

9 – Lækjarbotnar

Lækurinn sem rennur í jaðri Stekkjarhrauns og framhjá Setbergsskóla kemur úr Lækjarbotnum í norðurjaðri Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru steinhleðslur undan timburhúsi sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá svo trépípa niður til bæjarins og var í raun fyrsta alvöru vatnsveita bæjarins frá um 1909. Sjá má vanræktar leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið.

Stíflan efst við Gráhelluhraun. Efst má sjá Selvogsgötuna.

Stuttu ofar, í skógarjaðrinum má sjá hvar vatnið kemur undan hrauninu. Rennslið dugði þó ekki á sínum tíma til að anna vatnsþörf bæjarbúa og það varð til þess að árið 1916 fengu þeir Jóhannes Reykdal og Jón Ísleifsson verkfræðingur brjálæðislega hugmynd. Þar sem nægt vatn var í Kaldárbotnum, uppruna Kaldárinnar, var það áhugavert að koma því vatni til bæjarins. En það var löng leið og ekki á færi manna þá að leggja rör eða stokk alla þá leið auk þess sem það var yfir gjá og misgengi að fara. En hvað gera menn þá? Jú, hlaða úr grjóti og smíða tréstokk sem hleypti vatninu um 1,6 km leið yfir hraun og djúpa Lambagjána. Var vatninu sleppt inn á vatnasvæði Lækjarbotna og það var mikil spenna í bænum þegar beðið var eftir því hvort vatnið yfirleitt kæmi fram neðar í hrauninu. Voru margir efins um þessa aðferð, en vatnið kom í ljós um síðir og dugði vatnsveitan úr Kaldárbotnum allt til 1951 þegar ný vatnsleiðsla var lögð úr Kaldárbotnum í Hafnarfjörð.

Hluta af vatnsleiðslunni má enn sjá en mest af henni hefur nú verið eyðilögð.

Því miður grotna minjar um þessa vatnsveitu niður og lítið er gert til að varðveita þessa sögu úti í náttúrunni t.d. með endurgerð hluta stokksins og uppsetningu á fleiri fræðsluskiltum.

Austan við lækinn má finna götu sem liggur alla leið í Selvog en það er hin margkunna Selvogsgata.

Látið ekki hjá liggja að ganga inn í Gráhelluhraunið, þar er góður göngustígur og margt að sjá, ekki síst ef vikið er svolítið frá stígnum.

Hér má sjá þar sem vatnið kemur undan hrauninu.

Gott að leggja

Leggja má við bílastæði við leikskólann Hlíðarenda innst í Mosahlíðinni.

Markmið

Ganga úr bænum í Lækjarbotna þar sem vatnið kom upp í fyrstu vatnsveitunni ofan við hlaðinn stíflugarð, sem þar er.

Leave A Comment

Go to Top