Stóri-Skógarhvammur er eitt best varðveitta leyndarmál hafnfirskrar skógræktarsögu. Þangað liggur enginn akfær vegur, einungis slóði, sem ætlunin er að betrumbæta. Hvammurinn er í norðanverðum Undirhlíðum milli Bláfjallavegar og Krýsuvíkurvegar og var áður vinsæll áningastaður þeirra sem fóru Undirhlíðaleið, gömlu þjóðleiðina milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.

Auðvelt er að komast í Stóra-Skógarhvamm með því leggja bílnum á afleggjara af Kýsuvíkurvegi norðan við Vatnsskarð eða við aflagða malarnámu í Undirhlíðum við Bláfjallaveg. Þar eru stikur sem vísa á Undirhlíðaleið. Leiðin að Stóra-Skógarhvammi er tæplega 2 km löng, hvora leiðina sem farið verður.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958. Byrjað var á að girða 56 ha. spildu af sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti.

Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.