Lónakotsselsstígur liggur frá Lónakoti upp í Lónakotssel undir Skorási. Á ásnum er varða, sem sést víða að.
Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við á hægri hönd. Þetta er falleg fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum svonefnda, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir vel í bók sinni Íslenskum aðli. Nú hefur verið komið fyrir grind af húsinu á gjallhaugnum til minningar um listaverkið sem þar var.
Þegar Alfaraleiðinni er fylgt áfram þar sem vikið var af henni við Smalaskálahæð, þá er framundan stakur hraunhóll sem minnir á höfuðfat. Við hann eru brot af þremur vörðum. Vörðurnar gefa til kynna gatnamót Lónakotsselsstígar og Alfaraleiðarinnar. Selstígurinn er auðrakin til norðurs, en er erfiðari viðureignar frá gatnamótunum upp í selið. Þar kemur varðan á Skorási sterk inn sem kennileiti.
Gatnamót Alfaraleiðar.
Leave A Comment