Lengi var talið að Ásfjall væri lægsta fjall á Íslandi. Reyndar er lægra fjall á Austurlandi svo Ásfjall er þá a.m.k. næst lægsta fjall Íslands.
Á Ásfjalli er gott útsýni yfir fallegan fjörðinn og nágrenni og það nýttu sér hermenn á stríðsárunum. Enn má sjá merki eftir byrgi þeirra á fjallinu.
Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar reisti árið 1987 útsýnisskífu á fjallinu, rétt við vörðuna sem þar er. Með útsýnisskífunni má þekkja fjöll og staði sem fyrir augum ber.
Gott að leggja
Fjölmörg bílastæði eru við Tjarnarvelli og við Ásvallalaug þaðan sem gaman er að ganga á fjallið og einnig við Áslandsskóla utan skólatíma.
Markmið
Markmiðið er að ganga upp á Ásfjallið til að upplifa fallegt útsýnið yfir Hafnarfjörð. Frá útsýnisskífunni má ganga eftir öxlinni til suðurs og koma niður á Skarð og á göngustíginn í kringum Ástjörnina. Slóðinn á fjallinu er greinilegur en grófur.
Fróðleikur
Friðlandið við Ástjörn er 28,5 ha að stærð og var friðlýst 1978. Vegna fuglaverndunar er óheimilt að fara um svæðið frá 1. maí til 15. júlí utan merktra stíga. Bærinn Ás stóð í brekku vestan undir Ásfjalli. Norður frá Ástjörn var býli, sem hét Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Þótt bærinn Ás hafi verið rifinn má enn sjá margar minjar húsa og annarra búsetuleifa.
Varðan á Ásfjalli var eyðilögð snemma á öldinni en var reist aftur með leiðsögn frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Mörgum þykir hún þá allt of flöt og ekki lík þeirri sem menn muna eftir fyrrum.
Útsýnisskífan á Ásfjalli átti sér langa sögu eins og segir í 50 ára afmælisriti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Þegar hún var komin á sinn stað voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en árið 1987 að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.
Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson, Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa.
Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987 og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu.
Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!
Leave A Comment