ATH: Eldra merki hefur slæðst inn á prentaða kortið en merki 24 er norðan og austan Bláfjallavegar en EKKI vestan Krýsuvíkurvegar. Þar er merkt merki 24 sem á ekki að vera á kortinu.

Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðakróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingargili (sem er utan við Lönguhlíðarhornið). Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.

Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður úr hlíðunum hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið úr Bollunum kom frá gígunum ofan Skarðanna. Stóribolli er þar einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður. Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna að ofanverðu eru háir móbergsveggir. Kerlingagilið er ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar og áfram inn í Brennisteinsfjöll. Um gilið fóru smalamenn fyrrum.

Sagan segir að tröllskessa í Kerlingarhnúk hafi farið að heimta hvalreka á Hvaleyri ásamt systur sinni. Skiptin drógust vegna deilna um réttindi til hlutanna. Systirin hélt heim á leið um kvöldið ásamt fjölskyldu sinni, en skessan í Kerlingarhnúk ákvað að dvelja daginn eftir hjá vinkonu sinni í Hvaleyrarhamri. Eins og alkunna er dagaði fjölskyldan fyrrnefnda uppi á Valahnúkum þegar sólin birtist þeim ofan við Grindarskörðin snemmmorguns.

Tröllskessan úr Kerlingarhnúk og vinkona hennar í Hamrinum tóku upp á ýmsu sér til gamans er hrekkti mennska menn á Hvaleyri. Varð svo mikið ónæði af skessunum að ábúendur ákváðu að fara gegn þeim. Söfnuðu þeir liði við sólsetur og kveiktu elda á Hamrinum. Heimaskessan kærði sig kollótta, en vinkona hennar vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið. Ákvað hún að flýja ónæðið og halda heim á leið. Þegar tröllskessan var komin upp á Stórhöfða varð henni litið aftur. Sá hún þá háværan flokk manna með kyndla fylgja henni þétt eftir. Hélt hún þá för sinni áfram upp Stórahvammsgil ofan við Stórahvamm (hét áður Stórkonuhvammsgil) í Undirhlíðum og alla leið upp á Lönguhlíðar um Stórkonugjá ofan við þar sem nú heitir Stórihvammur eða Lönguhlíðahvammur (-krókur).

Þarna gætu örnefni hafa færst til í tímans rás. Eftirmenn fylgdu þétt á eftir skessunni. Þegar þeir voru komnir í Stórahvamm (sumir segja hann heita Stjórahvamm) bað fyrirliðinn þá nema staðar, enda tröllskessan var þá kominn upp á efstu brúnir ofan gjárinnar. Það var líka vel af ráðið því nú tók tröllskessan til við að kasta í þá stórum steinum, hverjum á fætur öðrum. Fylgdarmenn forðuðu sér út úr seilingu og mun það hafa orðið þeim til lífs. Biðu þeir af sér húmið. Skömmu fyrir birtingu hvarf tröllskessan í átt að Kerlingarhnúk og linnti þá látunum.

Til marks um atburðinn forðum má enn sjá svonefnda Stórkonusteina undir Stórkonugili og er Stórahvamms-Stapi þeirra stærstur. Lækur rennur niður í Lönguhlíðarkrók frá Kerlingarskarði vestanverðu. Heitir hann Stórkonulækur.