Draughólshraun er að öllum líkindum eitt fáfarnasta hraunið á Reykjanesskaganum. Reyndar er hraunið ekki víðfeðmt, en nægilegt þó til þess að bæði fólk og skepnur, nema kannski refurinn, hafa löngum lagt lykkju á leið sína til að forðast að þurfa að ganga um það.

Draughólshraun heitir eftir efsta stóra hólnum í hrauninu; Draughól. Það er dæmigerð afurð apalhrauns. Líklega hefur varða á brún Draughólshrauns komið til af því að fæla fólk að fara um svæðið af ástæðulausu, sem síðar átti eftir að koma í ljós, eða sem vísbending um að þangað væri ekki óhætt að fara. Í raun er hraunið hluti af stærra hrauni, eða hraunum, á svæðinu. Meginhraunið er Hrútagjárdyngjuhraunið. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að það hafi myndast fyrir um 4500 árum.

Hraunin ná yfir 80 km² svæði. Neðarlega, skammt ofan við Þorbjarnastaði í Hraunum, eru nokkrar lítt áberandi hraunskellur, nefndar Selhraun 1, 2, 3 og 4. Hraun þessi eru öll yngri en Hrútagjárdyngjuhraunið, misgömul þó, en öll u.þ.b. 4000 ára. Svo virðist sem undirlag þeirra hafi orðið til í jarðhræringunum í kjölfar dyngjugossins í Hrútagjá, sum jafnvel um svipað leyti. Gróningar benda þó til þess að hraunin geti verið, það yngsta, allt að 2000 árum yngri. Elsti flákinn er Selhraun 4, svonefnt Gráhelluhraun. Í því er t.d. Kolbeinshæðaskjólið og Kolbeinshæðahellir. Þá koma þrjú Selhraun 3, annars vegar vestan í Brunanum (Nýjahrauni/Kapelluhrauni) og hins vegar Draughólshraunið.

Varða við merkið í Draughólshrauni