Áður fyrr voru selsstörfin og smalamennskan órjúfanlegur hluti sumarvinnunnar frá fráfærum til sláttar. Enn í dag má sjá ummerki um rúmlega 400 selstöður á Reykjanesskaganum, en selfarir lögðust að mestu um 1870.

Selsstörfin héldust mikið til óbreytt um aldir. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri. Í Selin var farið með allan ásauð og stundum kýrnar. Selin voru venjulega þrjú hús: selbaðstofa, búr og eldhús til hliðar eða frálaust. Þannig voru flest selin á Reykjanesskaganum, reyndar með breytingum frá einum tíma til annars. Stekkir og kvíar voru og til mjalta. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr.

Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera. Þrátt fyrir komu bóndans komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Urðu til margar sögur þar sem selmatseljur komust í tæri við huldumenn og urðu þungaðar eftir þá; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti huldumaðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar barn þeirra var orðið fullorðið og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir urðu báðum jafnan að bana.