„Óttarsstaðasel er sunnan við Meitla. Í þeim er Meitlaskjól. Frá Meitlunum blasir selið við. Þar endar Skógargatan. Rústir eru eftir tvö sel, þrjár byggingar í hvoru. Snúa dyr austur og vestur. Gríðarmikið graslendi er hjá selinu. Vestan við túnið er hæð og vestan í henni gríðarstór hellir. Hefur sýnilegar verið reft yfir þetta skjól og það þá verið bezta fjárskýli. Efst í túninu er klapparker með vatni, á annan metra að dýpt. Vatnið þornar mikið upp á sumrin og verður tómt grugg í þurrkum. En vestan í smáhæð vestast í túninu er hola í klöpp og í henni mikið vatn og tært, sem aldrei þornar. Við holuna lá alltaf flaska í gamla daga, til þess að ferðamenn gætu fengið sér vatnssopa.

Í suður frá selinu sér í op á miklum hraunbás. Þar er ævagömul rétt (nátthagi), sem stendur óhögguð enn í dag. Réttin stendur á klöpp og eru veggir hlaðnir frá hvorum kersbarmi og allrúmgott, þegar inn er komið. Sennilega hefur verið haft þar fé á nóttunni.“

Í Óttarsstaðaseli má finna flest það er prýðir dæmigert sel á Reykjanesskaganum; selsstíg, selsvörðu, vatnsból, fjárskjól, nátthaga, stekki og selshús; baðstofu, búr og eldhús.