Ratleikur 2023

1 – Greni

Húsið Eyrarhraun var byggt ofan Langeyrar árið 1904 af Engilráð Kristjánsdóttur og Sigurjóni Sigurðarsyni. Íbúðarhúsið brann vegna íkveikju árið 2005, en hafði áður staðið mannlaust í eitt ár. Varða er á kletti í hrauninu skammt frá þar sem bærinn stóð til minningar um fólkið sem þar bjó og/eða ólst upp. Sunnar eru miklir hlaðnir grjótgarðar. Ótrúlega margar tegundir eru til af greni. Sumir segja að þær séu allt að 80 en venjulega er talað um 50 tegundir. Greni er það sem krakkar kalla oft jólatré enda mikið notað um jólin víða um heim - sérstaklega rauðgreni og normannsþinur. Hér á landi er algengasta grenitegundin sitkagreni, en blágreni og rauðgreni eru líka algengar tegundir. Rauðgreni er smágerðara en hinar tvær tegundirnar og getur orðið ótrúlega gamalt allt að 1000 ára. Blágreni hefur dálítið bláleitan blæ og er heldur grófgerðara en sitkagreni. Til eru margir blendingar af greni og eru þau tré oft kölluð bastarðar. Hæð grenis er 30 til 50 [...]

2 – Gata

Áður fyrr var sjaldan talað um götur þegar leiðir voru annars vegar, miklu fremur stíga og traðir. Leiðir að einstökum kirkjum voru þó taldar til gatna, sbr. „kirkjugata“. Vegir komu síðan til sögunnar við gerð vagnvega seint á 19. öld. Frá Hafnarfirði lá Garðavegur, kirkjuvegur Hafnfirðinga, út að Garðakirkju, eða allt þangað til kirkjur (Fríkirkjan 1913 og Hafnarfjarðarkirkja, vígð 1914) voru byggðar í Hafnarfirði. Löngum fetaði fólkið við Hafnarfjörð, allt vestur að Lónakoti, Garðakirkju fjörugötuna, en fljótlega um og eftir aldarmótin 1900 var farið að huga að því að leggja slóða og götur um hið strjála kofaþyrpingasvæði Hafnarfjarðar ofan strandarinnar. Ein af fyrstu götunum, sem lagðar voru í byrjun aldarinnar var fyrrnefndur Garðavegur – kirkjugatan, sem þá lá upp frá austanverðu Akurgerði og nefndist Kirkjuvegur. Garðavegurinn hefur týnst að hluta, einkum þar sem hann lá um Víðisstaði og núverandi byggingarsvæði Norðurbæjar Hafnarfjarðar að ofanverðum Hleinum (þar sem Hrafnista trjónir nú ofan við gamla Allianz fiskreitinn). Í nýlegri fornleifaskráningu fyrir [...]

3 – Fura

Í Stekkjarhrauni, einu af Búrfellshraununum, hafa einstaklingar plantað greni og furu, einkum nyrst og næst gömlu byggðinni, sem í fyrstu voru einungis sumarbústaðir. Tré hafa síðan sáð sér um nágrennið. Stekkjarhraun er í beinu framhaldi af Gráhelluhrauni og hefur hraunið runnið um þröngan farveg milli Setbergshlíðar og Mosahlíðar. Hraunið tekur nafn sitt af stekk nyrst í hrauninu. Það var friðlýst árið 2009. Furan er fjölskrúðugust og mikilvægust af ætt barrtrjáa. Hún getur bæði verið tré og líka vaxið eins og runni. Það eru til um 80 tegundir af furu á norðurhveli jarðar. Furan er sígræn eins og grenið en nálar hennar eru mun stærri og eru margar saman í knippum. Furur eru vinsælar í garða vegna þess að það er hægt að stýra vexti þeirra með því að klípa brumin af á vorin og svo fara þær líka vel við steina og þess háttar og svo er hægt að velja afbrigði sem geta verið mjög lengi að vaxa. Furur [...]

4 – Stekkur

Í Hádegisskarði milli Grísaness og Ásfjallsaxlar er stekkur frá Ási. Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum á meðan á mjöltum stóð. Áður fyrr voru ær mjólkaðar í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk heim á bæ. Víða má sjá stekki nálægt gömlum bæjum sem og örnefni þeim tengdum, s.s. Stekkjarlág, Stekkholt eða Stekkurinn. Stekkir voru nánast við hvern bæ á Reykjanesskaganum, stundum fleiri en einn. Stekkir í seljum voru tiltölulega litlir. Endurspegluðu þeir fjölda fjár á hverjum tíma. Upp úr sumum stekkjanna voru og hlaðnar fjárborgir. Nokkur dæmi eru um að hlaðnar hafi verið réttir við hlið bæjastekkjanna eftir að fráfærur lögðust af, s.s. við Garðastekk, Óttarsstaðastekk og Þorbjarnarstaðastekk. Gjarnan er bent á réttirnar sem stekkina fyrrum, en svo er alls ekki fyrir að fara. Sennilega er það vegna þess að leifar gömlu grónu stekkjanna eru í dag orðnir ógreinilegar fyrir augum ókunnugra. Ekki gleyma að [...]

5 – Lerki

Fyrstu trén voru gróðursett í Gráhelluhrauni, eitt af Búrfellshraununum, 27. maí 1947. Fyrsta sumarið var 2.300 trjáplöntum plantað í hrauninu. Í námunda við minningarskjöld um Guðmund Þórarinsson kennara og skógræktarfrömuð má sjá há furu- og grenitré. Í norður frá steininum, sem skjöldurinn er festur á, má einnig sjá fallegt lerkitré. Lerki (Larix), áður kallað lævirkjatré eða barrfellir, er sumargrænt barrtré sem vex í barrskógabeltinu á norðurhveli eða til fjalla á suðlægari slóðum. Til ættkvíslarinnar teljast 10-15 tegundir en lerki er af þallarætt. Engin lerkitegund er ættuð úr mjög hafrænu loftslagi og því skortir nokkuð á að þær séu aðlagaðar íslensku veðurfari. Hins vegar virðast þær kunna mjög vel við íslenska eldfjallajarðveginn og vaxa því betur í rýru landi en aðrar ættkvíslir trjáa. Síberíulerki hefur frá því snemma á 20. öld verið notað til skógræktar á Íslandi. Rússalerki, náskylt síberíulerki eða afbrigði af sömu tegund, hefur mestmegnis tekið við af því frá um 1980 en síberíulerkið er viðkvæmara fyrir íslensku [...]

6 – Skógur

Hákon Bjarnason (13. júlí 1907 - 16. apríl 1989) var skógræktarstjóri frá 1. mars 1935 til 30. júní 1977. Um miðjan sjötta áratuginn var Vatnshlíð norðvestan Hvaleyrarvatns lítið annað en berangurslegir grágrýtismelar með einstaka, ofbeittum rofabörðum, þegar Hákon Bjarnason fékk úthlutað gróðursetningarlandi þar árið 1955, sem er rétt um 8 ha að stærð. Hvergi var skjól að finna og í leysingum á vorin beljaði vatn niður hlíðina, og settu djúpar vatnsrásir sterkan svip á landið. Þegar Hákon sýndi konu sinni, Guðrúnu, landið í fyrsta skipti, féllust henni hendur, leit á mann sinn og spurði: „Hvað ætlar þú að gera hér?“ Landið var girt undir haust 1955, því að allmargt fé var þá þar í haga. Árið 1968 var girðingin stækkuð til vesturs. Bústaðurinn var reistur sumarið 1958 en stækkaður rúmum áratug síðar. Lítið gróðurhús var reist 1975 norðvestur af bústaðnum og hafa þar einkum verið ræktuð jarðarber þau ár, sem það hefur fengið að standa í friði fyrir skemmdarvörgum. [...]

7 – Varða

Á Bleiksteinshálsi er varða. Þetta er landamerkjavarða milli Hvaleyrar, Áss og Jófríðarstaða. Frá henni liggur línan til austurs í vörðu á Miðhöfða. Þannig verður Hvaleyrarsel sunnan Hvaleyrarvatns í landi Hvaleyrar, Ássel skammt austar í landi Áss og Jófríðarsel í Húshöfða í landi Jófríðarstaða. Flóknara er það nú ekki - nema ef vera skyldi staðsetning vörðunnar í nútímanum. Þegar jarðvegstippur var ákveðinn austan Grísaness höfðu einhverjir a.m.k. vit á að staðnæmast með framkvæmdir við vörðuna. Vörður verða aldrei taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur. Giskað hefur verið á að þær séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi. Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og skil á milli bújarða, benda á [...]

8 – Mosi

Byggðin á Ásvallasvæðinu stendur á Hellnahraununum. Hraunin runnu frá hlíðunum austan Lönguhlíða með þúsund ára millibili. Hið yngra er um 1200 ára. Ofan Valla nefnist hraunið Selhraun - langleiðina upp að Snókalöndum gegnt Brunntorfum. Það var á síðustu öld notað fyrir fiskhjalla, auk þess sem því hefur á síðustu áratugum að hluta verið spillt af efnistöku og með jarðvegstipp. Dúfnakofar standa nú við Hrauntungustíg, þar sem áður voru hjallar (trönur). Mosar eru áberandi gróðurtegund í upplandi Hafnarfjarðar. Tegundin er með litlar grænar plöntur, sem flestar hafa blöð og stöngul. Mosar hafa engar rætur og því halda þeir sér föstum og sjúga upp næringu með þráðum. Mosar fjölga sér með gróum. Upp af gróinu sprettur forkímsþráður og mosinn sjálfur upp af honum. Þegar eggfruman er frjóvguð, vex upp af henni stafur með bauklaga gróhirslu. Mosajurtin er hinn kynjaði ættliður, en gróhirslan og þráðurinn kynlaus. Mosum er skipt í soppmosa, hornmosa og baukmosa. Í öllum heiminum er talið að séu 35 [...]

9 – Reynir

Reynivið má sjá víða í hraunum í og við Hafnarfjörð, einkum þar sem fræ ná rótum í jarðföllum og sprungum. Hafnarfjarðarhraunin runnu frá Búrfelli fyrir u.þ.b. 8000 árum. Skjólsæl svæði, s.s. Hellisgerði, Víðistaðir og í Hleinum hafa fóstrað ófáa græðlingana. Reyniviður er fyrsta tréð sem Íslendingar ræktuðu, þeir gróðursettu reynisfræ við bæi sína allt frá landnámsöld. Reynir er algengur í skógum og varð í seinni tíð sérstaklega algengur við  heimahús - þá einkum ilmreynir. Hann vex fremur hægt. Það er auðvelt að þekkja reyniviðinn á blöðunum sem eru lítil og tennt. Blöðin raðast á stilka og eru á hverjum þeirra tíu-fimmtán saman. Reynir blómstrar miðsumars og ber þá falleg hvít blóm sem verða síðan að rauðum berjaklösum sem geyma fræ trésins. Reynirinn er oftast einstofna og er bolurinn sver og sterklegur en börkurinn er frekar ljós og þunnur. Reynir verður ekki mjög gamall. Þegar hann er orðinn 70 ára fer hann oftast að falla innan fárra ára. Til eru [...]

10 – Fjárskjól

Undir Stórhöfða, skammt vestan við Stórhöfðastíg er heillegt fjárskjól í Selhrauninu. Fjárskjól þetta hefur enn ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Það er í landi Hvaleyrar og hefur væntanlega tengst minjunum umhverfis Hvaleyrarsel, s.s. stekkjum o.fl., sem þar eru á og við Selhöfða og í Seldal. Líklegt má telja að skjól þetta hafi verið nýtt sem nátthagi, a.m.k. að hluta til. Fjárskjól eru 163 á Reykjanesskaganum, flest í hraununum ofan Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandar. Um eru að ræða leifar fyrri búskaparhátta þegar fjárbúskapur var önnur af tveimur stoðum samfélagsins. Hin var útræðið. Enn má víða sjá minjar fjárskjólanna, langflestar í skútum, hellum eða undir slútandi klettum. Fyrirhleðslur eru jafnan úr tilfallandi efni; grjóti með dyraopum. Skjólin eru algengari í hraununum á vestanverðum Skaganum, enda aðstæður þar sérstaklega hagstæðar til skjóls fyrir fénað en á berangri og jökulsorfnum hlíðum hans að austanverðu, að Þingvallasvæðinu slepptu. Þau má gjarnan finna nálægt bæjum eða við aðra nýtingarstaði, s.s. selin. Hús voru ekki byggð [...]

11 – Beitarhús

Í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns eru beitarhús frá Jófríðarstöðum. Þar var áður selstaða frá sama bæ. Tóftir hússins er allgreinilegar. Þeim hefur verið hlíft að mestu við skógræktinni umleikis. Leifar selsins eru norðvestan við beitarhússtóftina. Þær eru mun eldri og því ógreinilegri. Útihús voru ýmist nálægt bæjum eða allfjarri. Í Gráhelluhrauni má sjá dæmigert útihús fyrri tíma; hlaðið hús með gerði til beggja hliða. Mannvirkið er byggt utan í náttúrulegan hraunstand; Gráhellu. Útihúsið var frá Setbergi. Beitarhús eru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan af vellinum fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni var að dreifa beitarálaginu, líkt og í seljunum fyrrum. Beitarhús stóðu víða, stundum við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit. Rústir af [...]

12 – Vör

Útræði var annar meginatvinnuvegur fólks á Reykjanesskaganum fyrrum. Því má segja að vör hafi verið neðan sérhvers bæjarstæðis við ströndina, bæði notuð til fiskjar og aðdrátta. Straumsvörin er ein þeirra. Í henni sést vel hvernig brimgrjót hefur verið hreinsað úr henni og notað í garða ofar. Þar má og sjá bátarétt auk nausts. Verstöðvar voru heimaver og útver. Þau voru hvorutveggja ofan við ákjósanlega lendingastaði. Eftirfarandi um varir og bryggjugerð birtist „Úr skýrslu erindreka innanlands“ í Ægi 1918: „Að skaganum leggja hinar feikiþungu Atlanshafsöldur langt sunnan úr höfum og komar með ómælanlegu afli að ströndinni, rótandi öllu fjöruborði sem ekki er bjargfast, gera þær öllu fjöruborði sömu skil með ströndinni. Mörg af þessum fiskiverum eru fremur fámenn mestan hluta ársins, þótt á vertíðinni talsverður útvegur sé rekinn þaðan, anna því oft ekki þessir fáu heimilisföstu menn að halda við lendingunum, sem allvíða eru ekki annað en geilar í kletta, sem smásteinum hefir verið rutt úr, til að koma upp [...]

13 – Fjárborg

Fjárborgir á Reykjanesskaganum eru 142 talsins. Flestar eru borgirnar vel sýnilegar, en sumar þarf að gaumgæfa. Hinar fyrrnefndu rata jafnan inn í fornleifaskráningar, en hinar síðarnefndu ekki. Borgirnar voru jafnan hringlaga byrgi hlaðið úr torfi eða grjóti sem notað var fyrr á öldum til að skýla sauðfé fyrir veðri og vindum. Þær voru framhald fjárskjóla og undanfari fjárhúsa, en ekki voru byggð hús sérstaklega yfir sauðfé á svæðinu fyrr en í byrjun 20. aldar. Oftast voru aðeins háir veggir á fjárborgum en stundum voru þær hlaðnar með hvolfdu þaki. Aðeins ein dyr var og þær oftast aðeins fjárgengar. Leifar einnar slíkrar eru á Borgarstandi norðan Kaldársels. Um er að ræða topphlaðna fjárborg, sem með tímanum hefur fallið saman. Áhrif aðdráttarafls jarðar gildir jú um þær líkt og annað. Borgin er tiltölulega lítil umleikis, en það var forsenda þess að hægt var að hlaða í topp. Önnur sambærileg fjárborg var áður skammt austar á Borgarstandi, en Hafnfirðingar hirtu nærtækt grjótið [...]

14 – Hrauntröð

Víða í hraununum á Reykjanesskaganum má berja tilkomumiklar hrauntraðir augum; margar bæði langar og breiðar. Aðallega finnast hraunrásir í helluhraunum út frá gígopum þar sem efsta lag þunnfljótandi basaltkviku hefur storknað en bráðið hraunið haldið áfram að streyma í afmörkuðum farvegum undir eða á yfirborðinu. Rásirnar eru ýmist í gígveggjum eða í efri hluta hins nýrunna hrauns sem þegar hefur storknað að hluta. Lambagjá er afurð Búrfellshrauns, líkt og Búrfellsgjá, Selgjá og Kringlóttagjá norðaustar. Miklar hrauntraðir eru í ofanverðu Svínahrauni. Þessar traðir eru taldar til stórbrotnustu hrauntraða Reykjanesskagans. Lambagjá var friðlýst sem náttúruvætti árið 2009 ásamt Kaldárhrauni og Gjánum utan Kaldársels. Yfir gjána lá vatnsleiðslan frá Kaldárbotnum til Hafnarfjarðar. Undirstaða hennar er enn áberandi mannvirki þótt tréstokkurinn, sem var ofan á henni, sé horfinn. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Gráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í [...]

15 – Sel

Fyrrum, eða allt til loka 19. aldar, var selstaða frá nánast hverjum málsmetandi bæ. Í dag má sjá 401 slíka á Reykjanesskaganum. Elsta heimild um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Garðar höfðu einnig selstöðvar við Kaldársel. Hvaleyrarbóndi hafði selstöðu við Hvaleyrarvatn og síðar í Kaldárseli. Þegar Hvaleyrarbóndi hætti selförum að Kaldárseli lagðist selstöð þar niður með öllu, annað hvort 1865 eða 1866, þótt búskapur hafi verið þar með slitrum um skamma hríð eftir það. Garðabæirnir höfðu auk þess selstöður í Selgjá og nágrenni. Ein selstaðan er í Helgadal, við svonefndan Rauðshelli. Önnur, umfangsmeiri, er þar skammt sunnar. Ekki er ólíklegt að þessar selstöður hafi um tíma ýmist verið nýttar stakar eða saman. Hlaðinn stekkur er ofan við selstöðuna í grónu jarðfalli Rauðshellis, auk þess sem hellirinn hefur verið nýttur sem fjárskjól. Í jarðfallinu leynast hleðslur undir sverðinum. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti [...]

16 – Gervigígur

Litluborgir sunnan Helgafells mynduðust þegar glóandi hraun rann yfir vatn eða tjörn, sem þar var vestan Strandartorfu. Auk hraunstöpla og hellna mynduðust í jaðrinum nokkrir fallegir dæmigerðir gervigígar. Gervigígar myndast þegar hraun rennur yfir vatnsósa jarðveg, til dæmis mýri, vatnsbakka eða árfarveg. Í stuttu máli gengur ferlið sem leiðir til myndunar gervigíga þannig fyrir sig; hraunið rennur yfir vatnsósa jarðveginn, en sökum hitamismunar þess og yfirborðsvatns gufar allt yfirborðsvatn upp. Eingöngu verður eftir það vatn sem geymt er í jarðveginum því það kemst ekki í beina snertingu við hraunið. Þegar hraunið hefur hulið jarðveginn fer það að þykkna og þá eykst þrýstingur á undirlagið. Aukinn þrýstingur pressar vatnið úr hinum vatnsósa jarðvegi sem er undir hrauninu. Við það kemst vatnið í snertingu við sjóðheitt hraunið og myndar gufu. Gufan kemst hins vegar ekki í burtu þar sem hún er föst undir hrauninu. Þegar gufuþrýstingur er orðinn hærri en sem nemur álagsþrýstingi hraunsins brýst gufan upp í gegnum hraunið með [...]

17 Gígaröð

Hraungígar á Reykjanesskaganum eru af þrennum toga; Dyngjur (10.000-5000 ára), s.s. Þráinsskjöldur og Hrútargjárdyngja, stakir gígar (5000-2000 ára), s.s. Búrfell í Ölfusi, Búrfell ofan Garðabæjar og Leiti austan Bláfjalla, og gígaraðir á sprungureinum, s.s. Sundhnúkar; Eldvörp og Ögmundarhaunsgígaröðin frá sjó að Helgafelli. Víða ofan Hafnarfjarðar má sjá gíga á gígaröðum. Horfa þarf til þess að yngri hraunin hafa í gegnum tíðina runnið yfir þau eldri og því breytt landslaginu frá einum tíma til annars. Talið er að gosið hafi á sprungunni um miðja 12 öld og þá verið hluti af Krýsuvíkureldunum (Ögmundarhraun, Traðarfjallahraun, Sanddalshraun). Gossprungan nær frá sjó í suðri að Kaldárhnúkum í norðri. Þar sem gossprungan sveigir upp í Undirhlíðar verður hún slitróttari og eru þar aðeins tveir litlir gígkoppar á móberginu. Litlu norðar taka við Gvendarselsgígarnir sem Jón Jónsson (1978) hefur nefnt svo. Frá Gvendarselsgígum hefur runnið lítið hraun sem þekur botn lítils dals milli nyrsta hluta Undirhlíða og Helgafells, norður að Valahnúkum. Hraunið hefur runnið fram [...]

18 – Brunnur

Ath: Númerið vantar við stjörnuna á prentaða kortinu. Hér má sjá staðsetningu merkja 12 0g 18 á kortinu. Brunnar voru grafnir þar sem vatnsból skorti. Á Reykjanesskaganum, þar sem fátt er um ár og læki, voru brunnar grafnir svo til við hvern bæ, stundum fleiri en einn. Víða má enn sjá fallega hlaðna brunna við gömul bæjarstæði. Brunnurinn við Þorbjarnarstaði í Hraunum er í svonefndri Brunntjörn. Hann er hlaðinn úti í tjörninni nálægt bakka þar sem ferskt vatn kemur undan hrauninu. Brunnurinn sá hefur ekki ratað inn í fornleifaskráningu Hafnarfjarðar. Vestan við brunninn er hlaðin „þvottabrú“ þar sem ull var þvegin. Þaðan liggur brunngatan heim að bæ. Tröðin er hlaðin görðum beggja vegna. Um brunna var skrifað í Eir árið 1899: „Neysluvatn á að vera boðlegt til drykkjar og óskaðvænt heilsu manna. Vatnið er því aðeins boðlegt til drykkjar, að það sé bragðgott, litlaust, tært og lyktarlaust og hæfilega kalt bæði sumar og vetur. Vatnið er gómtamara [...]

19 – Skotbyrgi

Við Straumsselsstíg vestari er grjóthlaðið U-laga skotbyrgi. Annað sambærilegt er vestan við Straum. Hið þriðja á Smalaskálahæð skammt sunnar. Svona mætti lengi telja. Um eru að ræða skjól refaskyttu, ýmist skammt frá grenjum eða á útsýnisstað um ferðir lágfótunnar. Byssur komu hingað til lands á 15. öld. Þeir sem skoða Þjóðminjasafnið sjá þess þó hvergi merki að hér hafi nokkru sinni verið skotið úr byssu hvað þá að þær hafi verið notaðar til lífsbjargar, hins vegar er mikið til sýnis af verkfærum til sjósóknar og landbúnaðar. Það er helst á söfnum úti á landi að maður sjái gripi sem tilheyra skotveiðum, byssur, púður, högl og haglapunga. Innan um eru hinir merkilegustu gripir, til dæmis haglabyssur og rifflar sem hafa verið notaðir hér á landi. Refaveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi frá upphafi landnáms og refaskinn notuð sem verslunarvara. Allt frá upphafi var litið á refinn sem ógagnsemisdýr, sem þyrfti að halda í skefjum. Um tíma var bændum gert skylt [...]

20 – Kolagröf

Ummerki eftir kolagrafir má sjá víða - þótt nú til dags séu þær torséðar flestum. Örnefnin og minjar þeim tengdum vísa þó veginn. Brennisel í Hraunum er eitt skýrasta dæmið. Í því má bæði sjá heillegar grjóthleðslur sem hýstu geymslu, kolagröf og skjól fyrir athafendur. Varða er á jarðfallsbrúninni er vísar veginn. Skammt norðar er önnur kolagröf, eldri og óljósari. Viðarkol voru unnin úr kurluðu birki, fjalldrapa eða öðrum við sem settur var í gröf, oftast hringlaga, kveikt í og hún byrgð með torfi þannig að loft komst ekki að viðnum. Þetta var látið krauma í þrjá til fjóra daga. Afurðin var viðarkol. Þau voru nauðsynlegt eldsneyti í smiðjum og til rauðablásturs. Kolin voru líka mikilvæg til upphitunar og járngerðar, en auk þeirra var ýmsu öðru til tjaldað er verma þurfti híbýli og óna, s.s. mosa, beingörðum, taði og þangi. Á Íslandi var stunduð kolagerð frá upphafi byggðar, víða allt fram á 20. öld. Víða í Heiðmörk má t.d. [...]

21 – Skjól

Við Óttarsstaðaselsstíg eru nokkrir staðir, sem nýttir hafa verið tímabundið sem skjól fyrir fé og fólk með tilfallandi fyrirhleðslum. Má þar t.d. nefna Bekkjaskúta, Sveinsskúta og Meitlaskjól. Ofar Óttarsstaðasels eru Tóhólaskúti, Sauðabrekkuskjól og Sauðabrekkuhellar. Enn ofar er svo Húshellir. Hellar eru sérhver holrými sem leynast neðanjarðar. Hellar á Íslandi eru aðallega þrennskonar, íshellar, manngerðir hellar (í móbergi) og hraunhellar, en einnig eru önnur holrými í jörðu oft kallað hellar, t.d. skútar í sjávarbjörgum eða árfarvegum. Hellar voru áður fyrr notaðir sem mannabústaðir, og sjálfsagt verið fyrstu skýli mannsins fyrir veðri og vindum. Seinna með þróun mannkyns urðu hellar aðeins að skjóli fyrir skepnur, og jafnvel innréttaðir sem slíkir. Hraunhellar eru alls konar rásir í hrauni neðan yfirborðs jarðar. Hraunhellar geta verið af náttúrulegum uppruna eins og hraunrásir, hellar í hraundrýlum og hraunbólum. Þeir geta einnig myndast við svokallaðan troðhól, þá treðst kvika úr eldfjalli undir storknað hraunyfirborðið og lyftir því, þannig að holrými myndast. Móbergshellar og -skútar eru og [...]

22 – Nátthagi

Í nálægð selja voru nátthagar þar sem smalar héldu fjárhópnum saman að næturlagi. Ýmist er um að ræða náttúrulegar hvilftir, skjólsælar lautir eða skjól undir hraunbrúnum. Nátthagar voru nauðsynlegir fyrrum, hvort sem um var að ræða nálægt bæjum eða í seljum. Á síðarnefndu stöðunum var þeim gert að gæta að fénu frá síðdegismjöltum til morgunmjalta. Hvað var því ákjósanlegra fyrir þá en að geta hvílt bæði féð og þá sjálfa. Smalarnir hljóðu sér gjarnan skjól úr grjóti þar sem þeim var hlíft fyrir veðri, vindum og regni. Þessi smalaskjól má í dag víða finna fallin á hæðum, ásum eða undir hraunveggjum. Lesa má meira um smalaskjólin undir lið 23. Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!

23 – Smalabyrgi

Í eða við einstaka náttúruleg eða manngerð skjól má sjá bæli fyrir smala, s.s. í Efri-Straumsselshelli, Fjárskjólshraunsfjárhelli og við Gvendarhelli í Krýsuvíkurhrauni. Skjólið við Efri-Straumsselshelli er einstaklega heillegt. Ágætt skjól er einnig í hellinum, enda augljóst að smalinn hefur nýtt séð það. Umleikis framanverðan hellinn er hlaðið gerði, líklega nátthagi. Fyrirhleðsla er innst í hellinum til varnar því að féð leitaði innar en þörf var á. Hér á landi eru mörg örnefni sem eiga rætur að rekja til fyrri tíðar búskaparhátta sem nú eru horfnir. Eitt þeirra örnefna er Smalaskáli sem þekkt er, t.d. norðvestan Kaldársels. Smalar í hjásetunni munu hafa haft svonefnda smalakofa til að skýla sér. Smalinn gerði sér þannig eitthvert skýli, þar sem landslagi var svo háttað að ekki var skjól að fá frá náttúrunnar hendi. Þar hefur verið ákjósanlegur staður fyrir smalann að geyma mal sinn og vera á stað þar sem sást vel yfir þar sem ánum var haldið til haga. Samheiti við smalaskála [...]

24 – Vatnsból

Bæir voru jafnan byggðir við góð vatnsból, auk þess sem alfaraleiðir lágu jafnan nálægt slíkum gæðum. Sel voru gjarnan byggð upp við vatnsból, líkt og sjá m.a. í Fornaseli, Straumsseli og Óttarsstaðaseli. Vatnsbólið í Fornaseli er dæmigert fyrir „gott“ vatnsból. Þegar vatn þraut í seli á góðviðristímum varð frá að hverfa. Oftar en ekki var ágangi drauga kennt um. Það þótti skiljanlegri ástæða en sú raunverulega. Ár og vötn eru ekki hentug vatnsból. Vatnið verður oft volgt á sumrum, og kalt á vetrum. Í leysingum og úrkomutíð verður það óhreint (gruggugt, skolótt); loks er hætt við, að saurindi komist i það nærri byggð. Skal jafnan gæta þess, að hafa ekki peningshús, hauga eða forir nærri bæjarlæknum, fyrir ofan þann stað, þar sem vatn er sótt í hann. Jarðvatn er besta neysluvatnið; það er hreinast og jafnkaldast. Viða kemur það sjálfkrafa upp úr eða út úr jörðinni; það köllum vér uppsprettur eða lindir. Vatnið í þeim er álíka kalt sumar [...]

25 – Misgengi

Stórhöfðastígur, í átt að Fjallinu eina frá hraunhólunum norðaustan Fremstahöfða, liggur meðfram norðanverðu tilkomumiklu misgengi. Þar sem það er hæst verpir smyrill. Misgengið er hluti af víðfeðmnu landsigi milli Fjallgjárinnar og Sauðabrekkna. Vestar heldur það áfram eftir miðjum skaganum, milli Hrafnagjár og Brunnastaðaselgjár í Vatnsleysu- og Vogaheiði. Vestar er misgengið áberandi í Hábjalla norðan Snorrastaðatjarna. Norðaustan Fjallgjárinnar heldur misgengið áfram um Helgadal, Smyrlabúð og Hjalla í Heiðmörk. Misgengi má sjá víða hér á landi þar sem jarðskorpan hefur ýmist gengið í sundur (gliðnað) eða sigið (risið). Þau eru af ýmsu tagi en megingerðirnar eru þrjár; siggengi vegna gliðnunar (til dæmis Almannagjá), ris- eða þrýstigengi vegna samþjöppunar (engin dæmi hér á landi, en fræg í fellingamyndunum) og sniðgengi vegna hliðrunar (til dæmis Suðurlands- og Tjörnes-brotabelti). „Þverbrotabelti“ er notað um sniðgengi eða kerfi sniðgengja sem tengja ása rekhryggja. Tilurð þessara íslensku brotabelta er vel þekkt. Hryggjakerfi Norður-Atlantshafs rekur til vest-norðvesturs tæpan sentimetra á ári miðað við heita reitinn og með því [...]

26 – Hraunreipi

Helluhraun er afurð eldgosa úr eldborgum, dyngjum og gígaröðum. Hægt er að líkja helluhrauni við seigan vökva þar sem það rennur fremur hratt um stund, en storknar síðan smám saman - fyrst á yfirborðinu. Í Skúlatúnshrauni sunnanverðu, norðan Melkraka vestanverðan, hefur áður runnið lækur úr Óbrennishólum. Vatnið hefur skolað hraunskorpuna og opinberað á henni falleg, margvísleg, hraunreipi. Á helluhraunum sem hafa náð að haldast þunnfljótandi allt þar til þau stöðvast hefur myndast tiltölulega slétt og samfelld deig skorpa, sem einangrar hraunið og því er útgeislunin ekki næg til að það kólni og verði of seigt. Undir því rennur hraunið heitt uns það nær jaðrinum. Svoleiðis myndast eins konar tær, eða koddar, í jaðri hraunsins þegar hraunið rífur gat á hann og smeygir sér í gegn. „Nýjar tær geta komið fram á milli eldri táa eða í þeim miðjum og þannig skríður hraunið fram, oft í nokkrum óreglulegum áföngum. Sé flæðið hraðara undir yfirborðinu og yfirborðið hálfstorknað geta einnig myndast [...]

27 – Birki

Meðlimir Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hafa verið duglegir að planta trjám, birki, greni og furu, á afmörkuðum svæðum í Undirhlíðum. Einn er þó sá staður í Hlíðunum þar sem birki hefur fengið að vaxa villt um alllangt skeið. Það er birkið ofan við Kerin svonefndu, hraungíga norðaustan Bláfjallavegar. Þar má í dag finna hávöxnustu villtu birkihríslurnar á Reykjanesskaganum. Birki er ættkvísl jurta af birkiætt sem vaxa víða um norðurhvel jarðar. Birki er skylt elri (ölur) og hesli sem teljast einnig til birkiættar. Birkitegundum er skipt í fimm undirættkvíslir. Birkið er auðþekkt á smágerðu tenntu laufi og ljósum pappírskenndum berki. Ekki gleyma að taka prentaða kortið með þér!

Go to Top