Ofan við Selhraun (ofan Þorbjarnarstaða og vestan Þorbjarnarstaða-Rauðamels) eru engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur (Straumsselsstígur vestari), sem lá allt til Krýsuvíkur, „jafnframt fjallreiðarvegur á kafla“, eins og segir í örnefnalýsingu.

Í skrá Gísla Sigurðssonar segir, að „framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri“. Tobbuvarðan eystri var á eystri klettinum og sést vel þegar genginn er stígurinn upp í Gjásel og Fornasel. Tobbuvarðan vestari hefur verið lagfærð og sést vel norðan Tobbuklettsréttar. Hleðslur réttarinnar eru enn vel greinilegar.