Seljahraun er lágt brunahraun upp af Gvendarbrunnshæðinni (angi af eldra Afstapahrauni). Landamerkjalínan lá frá Gvendarbrunni (Gvendarbrunnshæðarskjóli) suður yfir hraunið og þaðan upp í Mjósundavörðu. Skammt vestur af vörðunni eru Bekkir og fyrir ofan þá Bekkjahraun. Þar var gríðarmikill fjárhellir, hlaðinn og reft yfir, kallaður Bekkjaskútinn. Er hann í alldjúpri laut eða jarðfalli, sem kallast Bekkjahraunsker.

Í örnefnalýsingu segir: „Töluvert norðvestur af Bekkjunum eru Brenniselshæðir. Þar eru tveir fjárskútar, kallaðir Brenniselshellrar. Annar er feiknastór og var yfirreftur, en nú er það fallið niður. Jarðfall uppgróið er fyrir framan hann. Þar suður og upp af er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður Steinkirkja. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti.“

Brennusel er greinilegt kolasel. Selstöður fyrrum voru til ýmissa nota, s.s. til fjár- og kúahalds, kolagerðar, fugla- og eggjatekju o.fl. Í dag eru slíkar selstöður nefndar „útstöðvar“ á fínu fjölmiðlafornleifamáli.

Framan við miklar hleðslur í jarðfalli eru leifar húss og skammt austar er hlaðið skjól. Áberandi varða er ofan við aðstöðuna.