Fremst á Flóðahjalla heitir Hádegisholt og var eyktarmark frá Urriðakoti. Eyktarmörk minna á horfna tíð með sínum búskaparháttum og mannlífi. Flóðahjalli er grágrýtisrani, sem liggur í um það bil norðvestur í framhaldi af Setbergshlíð. Hjallinn er allnokkuð gróinn og kjarrivaxinn að sunnanverðu, en er nú, því miður umlukinn þéttri lúpínubreiðu á sumrum.

Tóft er á og umhverfis klöpp eða klapparfláka nokkurn spöl vestan við hæsta hluta Flóðahjalla. Hún er óreglulega hringlaga, hlaðin úr grágrýti og hafa steinarnir án efa verið fengnir uppi á hrygg hjallans. Grjótveggirnir hafa að mestu verið hlaðnir á melnum utan við klöppina. Þar, sem veggirnir hafa staðist best, má ætla, að þeir hafi verið nokkuð á 2. m að hæð. Öll er tóftin er nærri 800 m².

Norðanvert í tóftinni eru innri hleðslur. Á klöppinni syðst á Flóðahjalla eru nokkrar stafristur. Þar er höggvið ártalið 1940, fangamarkið D.S. og væntanlega mannsnafnið J.E.Bolan. Auk þess má greina fangamörkin J.A. og G.H. með annarri og yngri (?) stafagerð svo og ártalið 1977 (?). Bolan er þekkt mannsnafn í Englandi. Það og ártalið 1940 bendir því eindregið til þess að hér hafi Bretar verið að verki hernámsárið 1940. Tóftin („the stone defence work mentioned“) mun hafa verið reist af mönnum úr 1/7 herfylki Wellingtons, sem var hluti af herdeild Camp Russel í Urriðaholti.