Helgafell er móbergshryggur og eitt af mest áberandi fjöllunum í fjallahringnum ofan Hafnarfjarðar. Það er um 340 m hátt, víða bratt og hömrótt. Mjög vinsælt er að ganga á fjallið og er þá auðveldast að fara frá Kaldárseli upp á hrygginn norðanmegin í fjallinu. Fallegt útsýni er af Helgafelli og má meðal annars sjá hvernig hraun í nágrenninu hafa runnið og landslagið liggur.
Í næsta nágrenni Hafnarfjarðar eru mörg móbergsfjöll og má þar meðal annars nefna Bláfjöll, Vífilsfell, Kóngsfell, Rauðuhnjúka, Valahnjúka og Húsfell. Móbergshryggir, eins og fellin og hnúkarnir, hafa myndast í gosi á langri sprungu undir jökli á kuldaskeiði ísaldar.
Efst á Helgafelli er Riddarinn. Hann átti tvífara í Brunanum (mið af sjó), en hann var fjarlægður vegna rasks á sínum tíma – umhugsunarlaust. Suðaustan í Helgafelli er hár klettaveggur, nefndur Kastalinn.
Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar setti upp útsýnisskífu á fellinu þann 18. júní 2019.
Leave A Comment