Jólaratleikur

2 – Grýla og Leppalúði

Samhent hjón um ekki neitt. Grýla lét ekki deigan síga og eignaðist hrúgu af börnum. Þess vegna elskar hún börn hvort þau séu í tómatsósu, í raspi, gufusoðin eða sem álegg á rúgbrauð. Hún reykir heimaræktuð fíflalauf og drekkur sterkasta hákarlalýsi til heilsubótar. Leppalúði er þessi þúsundþjalasmiður, moldarbúi sem allar konur dreyma um að eignast og ræður engu í hellinum. Hann sér um að þrífa, skipta á rúmunum, mjólka, um viðgerð á hellinum og að klóra Grýlu þegar við á. Lausnarstafurinn er: A

3 – Stekkjarstaur

Stekkjarstaur kemur fyrstur til byggða þann 12. desember Aumingja karlinn missti báða fætur sínar í fjallgöngu í harðindavetri fyrir öld síðan þegar hann féll í sprungu á heimleið á Hofsjökli þar sem hyskið býr. Það var fyrir tilviljun að hann hitti upprennandi ungan uppfinningamann að nafni Össur Kristinsson í berjamó og þegar hann sá hvernig var komið fyrir Stekkjarstaur vorkenndi hann honum svo að hann fékk þá hugmynd sem varð að fyrsta hjálpartækinu sem Össur er þekktur fyrir í dag. Lausnarstafurinn er: V

4 – Giljagaur

Hann er þessi draumkenndi misskildi listamaður sem fyrirfinnst í öllum fjölskyldum. Alltaf kátur þegar hann fær að njóta sín og þögull eins og gröfin í sköpun sinni. Hann kann á öll hljóðfæri sem til eru. Jafnvel á sög og teskeiðar! Hann yrkir ljóð í atómfræðum, bragfræðum og alls kyns fræðum. Nokkur listaverk liggja eftir hann í gleymsku í gamla bænum Straumi við Straumsvík. Hann skrifar leikrit og fer oft í ljósastaurahlutverk við sársaknað Hafnarfjarðarbíó. Lausnarstafurinn er: E

5 – Stúfur

Sá minnsti af bræðrunum og sést varla þegar hann kemur í bæinn þann 14. desember. Hann er 162 sm á hæð þegar hann stendur á tám og öfundaði Jóhann Svarfdæling eða Jóhann risa lengi vel eða þangað til að hann sá kosti þess að vera svona smár og lítill. Til dæmis getur hann talað við býflugurnar sem svífa um túnbrekkur eða hann finnur ekkert til þegar hann fellur af hæð sinni. Stórhættulegur þegar hann fer í heimsókn til Góu sælgætisgerðar. Lausnarstafurinn er: S

6 – Þvörusleikir

Hann var rétt 3 ára gamall þegar Leppalúði faldi þvöruskeið sem Þvörusleikir fékk nýverið í afmælisgjöf. Þvörusleikir var mjög skúffaður og grét og öskraði. En Leppalúði skemmti sér konunglega. En það var til þess að ætíð síðan hefur Þvörusleikir tekið ástfóstri við alls kyns skeiðar og ausur. En hann fer frá 15. desember að hnupla til dæmis í Fjarðakaupi. Hann hlakkar mest til þegar Leppalúði matreiðir kjöt í karrí og bíður með eftirvæntingu að matarleifar storkni á skeiðina. Þá leggst hann í rúmið og sleikir unaðslega skeiðina þangað til hann sofnar með ánægjusvip. Lausnarstafurinn er: E

7 – Pottaskefill

Ah, Pottaskefill! Hann er svo fljótur að jafnvel Lukku-Láki er letingi í samanburði við hann. Hann, eins og svo margir aðrir bræður hans í hellinum, hefur lifað við matarskort í æsku og þurfti að bjarga sér til að lifa af frostmikla vetur. Hann hefur hnuplað aðallega um allt Suðurland og um allt Norðurland. Snemma byggði hann upp þol með því að hlaupa eins og fætur toguðu til að forðast byssuskot bænda og kökukefli húsmæðra. En hann hefur verið langt á undan sinni tíð og hendir aldrei mat þótt úldinn sé. Lausnarstafurinn er: Ó

8 – Askasleikir

Aaææjææ...! Stærsti galli hans er að hann getur ekki haldið kjafti eina einustu mínútu! Ekki vegna þess að hann tali svo mikið heldur vegna stærðarinnar tungu í munninum á honum. Vesalingurinn varð á messunni sem barn þegar hann festi tungu sína á grýlukerti við útikamarinn heima og rann á sama augnabliki nokkrum metrum lengra með tunguna fasta á grýlukertinu. Hann lærði ekkert á vitleysunni og hefur margsinnis fest sig á frosna staura og auglýsingaskilti. Gera aðrir betur í heimskunni. Lausnarstafurinn er: G

9 – Hurðaskellir

Hurðaskellir skellur í lás þann 18. desember og drífur sig í bæinn til að skella hurð og aðra loka eins og vitleysingur. Þessi árátta Hurðaskellis varð þegar bróðir hans Kertasníkir kastaði til hans dínamíti í stað kertis sem sprakk í andlitið á honum. Við það missti hann heyrnina. Undanfarið hefur líf hans verið erfitt því allir læsa húsum og bílum. Nú til dags sést hann mest á hjúkrunarheimilinu Sólvangi öllu starfsfólkinu til ama en heyrnarlausir aldraðir dýrka hann. Lausnarstafurinn er: I

10- Skyrgámur

Allir Íslendingar borða skyr! Það er hollt og fullt af próteini. Vandamálið er ef maður borðar of mikið af því er hættan á að maður prumpi vinstri hægri í tíma og ótíma. Við matarborðið á aðfangadagskvöld er það ef til vill ekki ilmurinn sem gestirnir vilja gæða sér á. Við erum sammála því en hann Skyrgámi er alveg skítsama um það. Enda er það skemmtilegasta sem hann gerir á aðfangadagskvöld! En hann er í svo góðum félagsskap á jólunum að hyskið tekur undir með honum. Lausnarorðið er: A

11 – Bjúgnakrækir

Bjúgu eða sperðlar eins og sumir vilja kalla þau voru mjög algeng á borðum landsmanna fyrr á öldinni á veturna. Folaldabjúgu, kindabjúgu, bjúgur á fótum, nei þær flokkast ekki undir mat ... og kartöflur og jafningur. Namminamm. Hjá hyskinu eru bjúgur á matborðum tvisvar í viku! Ekki nóg segir Bjúgnakrækir! Þess vegna fer hann milli bóndabæja til að stela og svelta ekki til næstu máltíðar. Er byrjaður að neyta grænmetisbjúga. Bragðast ekki eins vel. Lausnarstafurinn er: S

12 – Gluggagægir

Hann fer aldrei út án þess að hafa kíkinn með sér. Það er stór misskilningur meðal landsmanna að hann sé að horfa inn til fólks um íbúðarglugga. Nei, hann gerir það líka um bílglugga, búðarglugga, hjólhýsaglugga, strætóglugga og líka nýverið um tölvuskjá. Hann fæddist með afar sjaldgæfan augnsjúkdóm sem gerði honum kleift að vera fullgildur félagsmaður Blindrafélagsins. Lausnarstafurinn er: K

13 – Gáttaþefur

Gáttaþefur er lengi að koma sér á fætur á morgnana hvað þá 22. desember þegar hann á að fara til byggða. Hann leggur af stað og syngur upphátt: „Er þetta Stebbi? - Nei, þetta er nebbi.“ Lagið um líkamann sem foreldrar syngja gjarnan fyrir ungabörn en þaðan kemur það. Hann er gæddur næmasta lyktarskyni sem völ er á en jafnvel Landsbjörg hefur kallað til hans til að finna týnt fólk á hálendinu. Lausnarstafurinn er: L

14 – Ketkrókur

Sterkastur og sá fúlasti allra í fjölskyldunni. Hann er næstsíðastur að fara til byggða á Þorláksmessu. Hann étur einungis hrákjöt, hvort um sé að ræða lamb, svín, naut, kjúkling, mink, álft, fisk eða ref vill hann fá kjötið sem ferskast. Hann erfði það frá mömmu sinni Grýlu. Enda greindist hann með mjólkuróþol í æsku og heimtaði strax kjöt. Hann tekur alltaf krók til kjötvinnslunnar Kjöt og fiskur til að næla sér í kjötbita. Lausnarstafurinn er: N

15 – Kertasníkir

Kertasníkir er ljúfastur en reyndar kolklikkaðasti gaurinn í fjölskyldunni. Hann er með sem kallast íkveikjuæði. Sem betur fer kveikir hann mest á kertum en hefur lent í því að kveikja í dínamít stöng. Hefur safnað í gegnum árin fleiri tonnum af kertastubbum sem hann geymir á sama stað og dínamít stangirnar sem félagi hans hjá Vegagerðinni útvegar honum og aðra flugelda. Hann fer á aðfangadag til byggða og tjúllast um áramót þegar fólk skýtur upp rakettum. Lausnarstafurinn er: G   Skráðu lausnarorðið Nú ættir þú að vera búin/n að skrá niður 15 stafi og þeir mynda eitt orð sem byrjar á J og endar á G. Smelltu hér til að skrá orðið og nafnið þitt sem fer í jólapottinn sem dregið verður úr í Jólaþorpinu á Þorláksmessu.

Go to Top