26. Smalaskálahæð
Í örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir m.a.: „Ofan við Jakobsvörðu, upp undir Keflavíkurvegi (gamla), neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigurðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói. Ofan við gamla [Suðurnesja]veginn er hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker, Smalaskálaker. Í því var listaverkið „Slunkaríki“. Smalaskálahæðir heita hæðirnar umleikis.“ Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna, neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni (Óttarsstaðafjárborg/Kristrúnarborg) vestan við Smalaskálahæðir. Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, skammt ofan við gamla veginn. Annar grjóthlaðinn aflangur smalaskáli er utan í hraunhól skammt vestar. Hann sést vel frá veginum.